Friðarvatn

María Loftsdóttir sýnir vatnslitaverk unnin úr regnvatni Friðarsúlunnar í Viðey

Hugleiðingar listakonunnar um sýninguna
Hugmynd mín að mála eitthvað tengt Friðarsúlunni í Viðey og friði í heiminum var nokkuð lengi að gerjast í huga mér. Ég horfði á friðarljósið á heimleið úr vinnu og líka úr eldhúsglugganum heima hjá mér og þetta dýrmæta ljós sem skín svo tignarlega upp í himininn gaf mér orku og von um frið í heiminum.

Við öll sem erum á þessari jörð óskum okkur friðar í hjarta og að geta lifað friðsamlegu lífi án utanaðkomandi ógnar eða átaka. Við erum heppin að búa á landi sem er friðsamlegt í flestum skilningi orðsins en þrátt fyrir það varðar heimsfriður og velferð manneskjunnar okkur öll. Heimurinn er stór og víðáttumikill en á sama skapi er hann svo ótrúlega lítill og sömu gildi, markmið, vonir og væntingar eiga við okkur mörg.

Ég velti lengi fyrir mér hvernig myndlist gæti nýst til þess að minna á friðinn og tengja við listarverkið sem sjálf Friðarsúlan er. Hugmyndin kom svo til mín eftir að hafa velt þessu fyrir mér í  nokkurn tíma. Aðferðin sem ég notaðist við var að safna rigningarvatni sem rigndi á Friðarsúluna í Viðey. Vatni sem fellur af himnum ofan, frjálst og óháð í eðli sínu. Vatn sem safnast saman við súluna á kröftugan hátt í mikilli rigningu en gárast svo friðsælt í litlum polli þar til það gufar upp.

Ég sótti vatnið út í Viðey á rigningardögum og hóf verkið með því að mála stórar vatnslitamyndir sem tákna heimsálfurnar sjö. Því næst voru 196 litlar myndir sem tákna öll lönd og ríki heimsins málaðar upp úr regnvatninu. Að lokum enduðu litlu myndirnar úti í Viðey þar sem ég setti á þær friðarvatnsdropa en þær eiga það sameiginlegt að á þeim öllum er hringur sem friðardropinn er geymdur í. Dropi sem er lítill í sjálfu sér en er tákn um friðinn og þá von sem tengir lönd og þjóðir saman. Von um frið, gleði og hamingju til þeirra sem á jörðinni búa.

Þetta hefur verið mjög gefandi og allt gengið vel, Viðey, Friðsarsúlan og friðarmyndirnar mínar. Heimsálfumyndirnar eru málaðar með liti og tónlist landanna í huga en í litlu myndunum fá litirnir að gefa tóninn og segja mér hvaða land ég er að mála. Með þessu móti sameinast einnig óbilandi áhugi minn á ferðalögum enn frekar þar sem myndlist og heimshornaflakk eru orðin órjúfanlegur hluti af mér og endurspeglast gjarnan í mínum verkum.

Við eigum aldrei að hætta að láta okkur dreyma eða gera það sem okkur langar til og síst þegar líður á árin. Að slá til og framkvæma hugmyndirnar þegar þær koma til okkar, njóta þess að vera og vera til núna.

Um listakonuna
María Loftsdóttir er fædd 1946. Hún hefur teiknað og málað frá barnæsku. Fyrst í Myndlistaskóla Reykjavíkur og síðan í Myndlistaskóla Kópavogs. María hefur einnig sótt ýmis myndlistarnámskeið erlendis. Flest Norðurlöndin hefur hún heimsótt í þeim tilgangi sem og Bretland, Frakkland, Marokkó og Japan. Hún er meðlimur í LITKA, myndlistarfélag og í Norrænu vatnslitasamtökunum, the Nordic Watercolour Society.

María hefur haldið fjölda einkasýninga og einnig tekið þá í mörgum samsýningum hér heima og erlendis frá árinu 1998. Má þar nefna einkasýningu í Toyako Museum of Art-Japan 2013  og samsýningu í Shu Agawara Museum Hokkido-Japan 2014. María hefur oft gefið söluandvirði verka sinna til góðgerðarmála.

María er menntaður sjúkraliði og hefur unnið á ýmsum sjúkrahúsum hér heima og erlendis, en síðustu 24 árin á Vogi. Í starfi sínu sem sjúkraliði hefur hún hjálpað fólki í veikindum með jákvæðni, von og kærleika. Þegar heim er komið eftir annasaman vinnudag finnst henni gott að grípa til pensilsins. Þannig tekst henni að gleyma stund og stað og næra sálartetrið því litirnir gleðja og hreinsa hugann eftir amstur dagsins.